Evangelísk lútherska kirkjan
Evangelísk lútherska kirkjan
Íslenska þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja og henni tilheyra 242.743 árið 2015. Meginþorri allra útfara á Íslandi fer því fram samkvæmt helgisiðum íslensku þjóðkirkjunnar.
Útförin er guðsþjónusta þar sem aðstandendur í samfélagi hins kristna safnaðar kveðja hinn látna og fela hann miskunn Guðs á hendur. Útförin tjáir sorg og söknuð þeirra sem eftir lifa og er játning hinnar lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.
Kirkjan játar og trúir að Jesús Kristur hafi með dauða sínum borið synd og dauða jarðarbarna og með upprisu sinni sigrað dauðann og opnað veginn til eilífs lífs. Útför tjáir í senn alvöru dauðans og sorgarinnar og birtu upprisuvonarinnar. Hún er einnig áminning til þeirra sem eftir lifa um að gefa gaum að dýrmæti lífsins og fallvaltleik. Í lífi sérhvers manns og í fagnaðarerindi krossins má sjá hve dauði og líf, ljós og myrkur, takast á. Þetta setur svipmót sitt á útförina en sorgin og dauðinn fá nýjan svip þegar það er borið uppi af ómi upprisunnar og hins himneska lofsöngs.
Moldin sem ausið er á kistuna er tákn þess að við erum af moldu runnin og til moldar stefnt, eins og allt sem lifir, en er ætlað að rísa upp, eins og hveitikornið. Signt er yfir kistu sem fyrirbæn og til áminningar þess að hinn krossfesti og upprisni frelsari hefur sigrað dauðann fyrir oss, náð hans og friður umvefur okkur í lífi og í dauða.
Athöfnin
1. Útför felur í sér ritningarlestur, vitnisburð um fagnaðarerindi upprisunnar, fyrirbæn og moldun, þar sem líkkistan er ausin moldu þrisvar með þeim
orðum sem Handbók kirkjunnar mælir fyrir um við þá athöfn.
2. Varðandi útfararathöfn skal leitast við að uppfylla óskir hins látna og/eða aðstandenda, enda séu þær í samræmi við reglur og venjur þjóðkirkjunnar.
3. Í kirkju skal kista snúa þannig að ásjóna hins látna horfi við altari.
4. Prestur sem annast útförina ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.
5. Heimilt er að molda í kirkju, en molda skal við gröf þegar þess er kostur.
6. Óheimilt er að nota annað en mold við moldun (svo sem blóm).
7. Hringja má klukku þegar lík er borið til kirkju. Hringt skal klukku fyrir útför og eins þegar borið er út úr kirkju. Hringt skal klukku þegar lík er borið til
grafar í kirkjugarði verði því viðkomið.
8. Prestur annast útför. Prestur sem ekki er í þjónustu getur annast útför á ábyrgð sóknarprests sem sér til þess að athöfnin sé skráð í kirkjubækur.
9. Kistulagningu og húskveðju getur djákni eða leikmaður annast.
10. Að jafnaði skal prestur eða djákni annast jarðsetningu duftkers. Ætíð ber að tilkynna jarðsetninguna viðkomandi sóknarpresti sem sér um að skráð sé í
legstaðaskrá.