Rétttrúnaðarkirkjan
Árið 2007 voru 167 skráðir í tvö trúfélög rétttrúnaðarkirkju á Íslandi. Árið 2015 eru 883 skráði í tvö trúfélög, rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og Serbnesku rétttrúnaðarkirkjuna.
Fyrir andlát er lögð áhersla á að prestur sé tilkvaddur fyrirskriftir syndanna þegar alvarleg veikindi ber að höndum eða yfirvofandi er dauðsfall. Gefa skal hinum sjúka kost á að ræða við prest í einrúmi og e.t.v. skrifta, óski sjúklingur þess. Þegar heilbrigðisstarfsfólk hefur samband við prest, skal það tilgreina hvað tungumál sjúklingurinn talar.
Herbergið skal vera hreint þegar prestinn ber að garði. Koma skal fyrir borði með hreinum dúki, sem gegnir hlutverki altaris, og á borðið eru sett 2 kerti og Biblía. Presturinn eða aðstandendur sjúklings mega koma með krossa og helgimyndir (íkon).
Í framhaldi af samtali prests og sjúklings er fjölskylda hins síðarnefnda iðulega viðstödd þegar hann meðtekur sakramenti heilagrar kvöldmáltíðar og smurningar.
Smurning er ekki eingöngu veitt dauðvona fólki – enda er litið á hana sem læknandi kraft Guðs – og því getur sami sjúklingur meðtekið þetta sakramenti oftar en einu sinni.
Í beinu framhaldi af andláti fer einn viðstaddra með stutta bæn. Þá er líka venja að lesa sálma við dánarbeðið. Það ber að gera presti eða forstöðumanni safnaðarins umsvifalaust viðvart þegar andlát ber að höndum.
Sé presturinn viðstaddur heldur hann stutta bænastund (panihida) við dánarbeðið þar sem hann biður um fyrirgefningu syndanna og frelsi til handa hinum nýlátna.
Hendur hins nýlátna eru lagðar á bringuna með tilliti til þess að þannig er líkinu venjulega fyrir komið við kistulagningu.
Engar athafnir fara fram.
Rétttrúnaðarkirkjan er ekki hlynnt krufningu og forðast ber hana sé þess nokkur kostur.
Ef flytja þarf lík á milli landa eða svæða er leyfilegt að smyrja það.
Búið er um líkið á hefðbundinn hátt, það þvegið og snyrt. Oft er þetta í umsjá útfararstofu. Líkið er klætt í ný föt og nýja skó. Á ennið er festur borði með áletruninni: „Heilagi Guð, Heilagi almáttugi, Heilagi ódauðlegi Guð, miskunna okkur.“
Engar trúarathafnir tengjast reifun líks.
Notast er við hefbundnar kistur. Líkið er lagt í kistuna með handleggina meðfram síðunum. Hendur eru lagðar saman á bringunni og íkon eða kross eru lögð í hendurnar.
Presturinn fer með stutta bæn (litia) við kistuna að viðstaddri fjölskyldu hins látna áður en kistunni er lokað og hún flutt í kirkjuna eða kapelluna. Ef aðstæður leyfa, eru sálmar lesnir við opna kistuna.
Andlátsfregn er birt á hefðbundinn hátt í dagblaði. Kross rétttrúnaðarkirkjunnar er birtur í tilkynningunni.
Blóma- og kransaskreytingar eru iðulega ríkulegar við rétttrúnaðarútför. Þar eð kistan er yfirleitt höfð opin við athöfnina og algengt að kirkjugestir leggi blóm í kistuna. Blómin eru fjarlægð úr kistunni áður en henni er lokað látin fylgja kistunni að gröfinni.
Presturinn lætur reyk úr reykelsiskerti leika um kistuna nokkrum sinnum á meðan á athöfn stendur og þarf útfararstofan því að gæta þess að blóma- og kransaskreytingum sé þannig fyrir komið að hann geti hæglega gengið í kringum kistuna.
Kórsöngur skipar veigamikinn sess í guðsþjónustunni en orgeltónlist er yfirleitt ekki spiluð.
Sé þess kostur fer útförin fram í safnaðarkirkjunni. Ef þetta er ekki gerlegt fer athöfnin fram í kirkjum eða kapellum þjóðkirkjunnar. Í undantekningum má jarðsyngja á heimili hins látna.
Hefð er fyrir því að útförin sé gerð á 3. degi eftir andlát. Þetta er ekki alltaf framkvæmanlegt en eftir sem áður skal kappkostað að jarðsyngja eins fljótt og unnt er.
Kistunni er komið fyrir í miðju rýminu, umlukin þrem kertastjökum. Athöfnin fer iðulega fram við opna kistu. Andlit hins látna veit að altarinu.
Presturinn þjónar með tilstyrk söngs. Hann stendur við höfuðgafl kistunnar og snýr að altarinu. Við hlið lestrarpúltsins þarf að vera lítið borð svo presturinn geti lagt frá sér reykelsi ofl.
Kirkjugestir standa með kertaljós meðan athöfninni vindur fram.
Útförin er fyrst og fremst fyrirbænaguðsþjónusta handa hinum látna. Hin kristnu lífsgildi, vonin og kærleikurinn, eru reifuð og beðið er fyrirgefningar á syndum hins látna.
Athöfnin einkennist eins og aðrar kirkjuathafnir rétttrúnaðarkirkjunnar af víxlsöng safnaðar (kórs) og prests. Það er til siðs að kveðja hinn látna með kossi á borða á enninu. Ef kistan er lokuð eru íkon eða kross ofan á kistulokinu kysst.
Áður en kistunni er endanlega lokað er hvít ábreiða lögð yfir líkama og andlit. Ofan á ábreiðuna er sáldrað blessaðri mold blandaðri ösku úr reykelsiskeri.
Aðrir en prestar mega flytja líkræðuna (minningarorðin).
Frá kirkjunni gengur syrgjandi líkfylgdin að gröfinni. Presturinn er í fararbroddi með reykelsisker og kross í hendi. Presturinn blessar gröfina áður en kistan er látin síga. Að svo búnu fer hann með blessunarorð (litia). Presturinn og líkfylgdin ljúka athöfninni með því að kasta handfylli af möld í gröfina.
Eftir jarðsetningu koma aðstandendur saman til erfidrykkju. Í erfidrykkjunni fer presturinn með bæn bæði fyrir hinum látna og aðstandendum.
Minningarmessur (panihida) eru haldnar á þriðja, níunda og fertugasta degi eftir andlát. Því næst á ártíð andlátsins, á nafnadögum hins látna og á almennum minningardögum látinna.
Við slíkar minningarmessur er borin fram skál með soðnum hveitikornum og hrísgrjónum í bland við hunang. Þetta á að minna á upprisuna og „sætan“ unað himnaríkis.
Minningamörk eiga að vera kross sem táknar sigur lífs yfir dauða og má útfæra hann á ýmsa vegu (og úr mismunandi efnum). Auk hefðbundinna áletrana (svo sem nafns, fæðingar- og dánardægurs) má einnig áletra texta með trúarlegu inntaki. Minningamörk eru staðsett við fótagafl leiðisins. Á ártíðum skreyta ættingjar leiðið með blómum og kertaljósum.