Siðmennt og húmanismi
Á Íslandi eru 3.507 manns skráðir í Siðmennt.
Í augum húmanista er lífið aðeins eitt fyrir hvern einstakling en litið svo á að manneskjan lifi áfram óbeint í gegnum afkomandur sína og orðstír. Húmanistar trúa ekki á tilveru sálar eða andlegs íverustaðar eftir dauðann.
Á heimasíðu Siðmenntar er útfararskrá sem fólk getur fyllt út, prentað og sett afrit í hendur sinna nánustu. Á þessu blaði koma fram óskir viðkomandi um að haldin verði veraldleg eða húmnísk útför. Þá bendir Siðmennt á að hyggilegt sé fyrir fólk að fylla út lífsskrá til að útlista óskir sínar varðandi endurlífgunartilraunir, öndunarvélar og líffæragjafir.
Beri andlát að á spítala/stofnun er brýnt að hinn deyjandi fái að ráða sem mestu um aðstæður og hafi tök á að kveðja sína nánustu í einrúmi og kyrrð. Til að halda skýrleika í hugsun uns yfir lýkur hvetja húmanistar til varkárni við gjöf lyfja sem hafa slævandi verkun.
Húmanistar vilja að jafnaði ekki fá fulltrúa trúarsafnaða í heimsókn nema þess hafi sérstaklega verið óskað.
Engir sérstakir siðir fylgja húmanistum á þessari stundu og mótar hver einstaklingur og fjölskylda sinn eigin hátt. Enging tákn eða líkneski eru viðhöfð. Húmanistar vilja vera vel upplýstir um ástand sitt og fá að njóta skynsamlegrar verkjadeyfingar eftir þörfum.
Eftir andlát er ekki um neina athöfn að ræða við dánarbeðið og húmanistar haa ekki sérstaka fulltrúa sem heimsækja viðkomandi.
Húmanistar fara eftir reglum sjúkrahúsa um frágang á líkinu eða koma með einstaklingsbundnar óskir. Húmanistar eru oft og tíðum opnir fyrir því að gefa líffæri ef mögulegt er að nota þau. Það er því velkomið að starfsfólk líffæragjafateymis fái að tala við þá nánustu.
Útför skal fara fram innan venjubundins tímaramma en engar sérstakar venjur gilda um það á meðal húmanisma.
Húmanistar setja sig yfirleitt ekki á móti krufningu sé hún talin nauðsynleg eða jafnvel þörf fyrir kennslu. Þetta fer eftir atvikum og er einstaklingsbundið.
Engar sérreglur gilda um líkklæði og er það því í valdi aðstandenda að ákveða líkklæðnað.
Engar sérstakar reglur gilda um kistulagningu og skal það vera samkomulagsatriði þeirra nánustu og athafnarstjórans. Notaðar eru venjulegar kistur og skal kista vera án trúartákna.
Andlátsfregn er birt á hefðbundinn hátt. Nota má alþjóðlegt merki húmanista sem tákn við andlátsfregnina. Það er notað af einstaklingum og samtökum húmanista um allan heim. Annars er húmanistum frjálst að nota hvaða merki sem er eftir eigin vali og sumir hafa kosið uppáhaldsblóm, friðardúfu eða annað merki sem ekki tengist trúarbrögðum en er á einhvern hátt tengt lífi hins látna.
Aðstandendum er frjálst að velja þá tónlist sem henta þykir við útförina en hún skal að öllu jöfnu ekki hafa trúarlegt gildi. Blómaskreytingar eru valkostur hvers og eins.
Útförin fer fram í kapellu eða félagsheimili án trúartákna. Húmanistar kjósa ýmist jarðarför eða bálför. Leitast er við að nota húsnæði sem er ætlað öllum og byggt fyrir kirkjugarðsgjöld allra landsmanna eða viðeigandi veraldleg húsakynni.
Athafnarstjóri leiðir alla jafna athöfnina, en fyrir kemur að náinn vinur eða ættingi annist hana. Athöfnin er fólgin í virðulegum upphafsorðum, tónlist, húmanískri hugvekju, minningarorðum, stundum upplestri ljóða eða persónulegrar minningarræðu aðstandenda.
Þegar náinn vinur eða ættingi deyr ríkir ekki eingöngu sorgartilfinning. Húmanistar fagna lífshlaupi hins látna og það má t.d. gleðjast yfir skemmtilegum minningum og hamingjustundum, afkomendum, því sem við lærðum af hinum látna, það sem hún/hann gerði fyrir okkur og því að viðkomandi sé nú hluti af jörðinni.
Skreyting útfararkapellunnar getur verið með ýmsu móti. Ljós, blóm og annað fer eftir persónulegum smekk. Fari athöfnin fram í húsakynnum trúfélags eru trúartákn fjarlægð eða hulin eftir því sem mögulegt er og óskað er eftir.
Athöfnin við gröfina er alla jafan einföld og stutt. Athafnarstjóri fer með ljóð eða stutt minningarorð fyrir jarðsetningu. Engin tákn eru gerð með höndum eða viðhöfð að öðru leiti. Húmanistar kveðja hinn látna hver með sínum hætti en algengt er að lúta höfði, hneigja sig stutt eða setja rós á kistuna. Athafnarstjóri kveður nánustu aðstandendur og athöfninni er lokið. Engar hefðir eru hvað varðar lokun grafar.
Venja er fyrir því hjá Íslendingum að halda erfidrykkju og er það einstaklingsbundið hjá húmanistum hvort þeir haldi slíka eða ekki. Heiðra má minningu hins látna með fjárframlögum í þágu góðra málefna.
Notast er við venjulegan grafreit en það er einstaklingsbundið hvort húmanistar vilji forðast trúarlega vígða grafreiti eða ekki.
Engar reglur gilda um val á legsteini eða minnisvarða. Auk hefðbundinna áletrana er merki húmanista stundum rist á legsteininn eða tilvitnun í húmanískt spakmæli. Aðstandum er ráðið frá því að nota hvers kyns trúartákn. Húmainstar festa sér stundum leiði og taka frá grafstæði handa maka. Leiðin eru stundum skreytt, blóm gróðursett og lýsingu komið fyrir.